MANNAUÐUR OG SKRIFSTOFA

Vitjun ehf

Vitjun er ráðgjafafyrirtæki á norðurlandi, nánar tiltekið á Húsavík, sem býður upp á mannauðsráðgjöf og/eða skrifstofustjórnun. Verkefnin sem um ræðir geta verið fjölbreytt, allt frá starfsmannasamtölum og utanumhaldi reikninga til uppsetningar og úttekta á gæðakerfum, allt eftir samkomulagi.

Mannauður

Abstrakt mynd af fólki.

Almenn ráðgjöf

Almenn mannauðsráðgjöf hentar öllum, stórum sem smáum fyrirtækjum, sem og minni hópum innan fyrirtækja eða einstaklingum. Hún getur nýst sem fræðsla, sem úrlausn vandamál eða sem fyrirbyggjandi aðferð við yfirvofandi vandamálum. Dæmi um algeng verkefni mannauðsráðgjafa má sjá hér að neðan, það er vert að taka fram að framboð Vitjunar takmarkast ekki við neðangreind atriði.

  • 360° endurgjöf

    Fyrir þá atvinnuveitendur sem leitast eftir upplýsingum um frammistöðu starfsmanna og óska eftir úrbótum á einhverjum sviðum býður Vitjun upp á 360° endurgjöf, en það er heildræn nálgun á frammistöðu starfsmanna sem veitir þeim ítarlegar upplýsingar um styrki, veikleika og tækifæri hvers og eins. Algengt er að vinnustaðir nýti sér frammistöðumatið til þess að hindra stöðnun starfsmanna og til þess að þeir séu upplýstir um styrkleika sína og tækifæri sín til úrbóta. Slíkt er fljótt að skila sér til vinnustaðarins, bæði vegna þess að starfsmenn skynja mikilvægi sitt í gegnum ferlið en einnig vegna þess að stöðug þróun, viðbrögð við vandamálum og framsýn hugsun stuðlar að minni starfsmannaveltu.

  • Starfsmannavelta

    Margir vinnustaðir kljást við mikla starfsmannaveltu, en hún, ásamt ráðningum nýliða og þjálfun þeirra er kostnaðarsöm. Vitjun getur í þessu tilfelli aðstoðað stjórnendur í að leita leiða til þess að hindra óþarfa starfsmannaveltu. Þegar starfsmannavelta vinnustaða er athuguð er yfirleitt skoðað hversu margir starfsmenn hafa yfirgefið vinnustaðinn yfir ákveðið tímabil, þá oftast síðastliðið ár. Ástæður starfsmannaveltu geta verið fjölmargar og því er mikilvægt að nýta sér aðferðir mannauðsstjórnunar til þess afmarka þær og greina.

  • Vinnustaðamenning

    Séu atvinnuveitendur í vandræðum með menningu vinnustaðarins, og þar af leiðandi starfsandann, er mikilvægt að bregðast við. Vinnustaðamenning hefur gríðarleg áhrif á upplifun starfsmanna á skipulagsheildinni og þannig á frammistöðu þeirra. Vitjun getur í þessum tilfellum aðstoðað stjórnendur í að skapa og viðhalda jákvæðri, skemmtilegri og hvetjandi vinnustaðamenningu með aðferðum mannauðsstjórnunar.

  • Fjölmenning vinnustaða og kynslóðabil

    Vegna fjölbreytileika vinnuaflsins þurfa atvinnuveitendur að huga vel að starfsumhverfinu, upplýsingamiðlun og almennum samskiptum. Vitjun býður upp á fræðslu til stjórnenda og samstarfsaðila um fjölmenningu og kynslóðamun til þess að draga úr líkum á því að samstarfsaðilum sé mismunað eða misboðið vegna vanþekkingar á fjölbreytileika þeirra.

  • Fjarvinna

    Margir vinnustaðir bjóða í dag upp á möguleikann á fjarvinnu, enda er krafa starfsmanna um sveigjanleika í starfi kominn til að vera. Fjarvinnu er hægt að sníða að hverjum vinnustað fyrir sig og getur hún haft mjög jákvæð áhrif á starfsanda vinnustaðarins og dregið úr ónauðsynlegri fjarveru starfsmanna. Vitjun býður upp á fræðslu um fjarvinnu og aðstoð við gerð verklagsreglna og uppsetningu á skipulagi í kringum fjarvinnu starfsmanna.

  • Móttaka og þjálfun nýrra starfsmanna

    Margir vanmeta mikilvægi verklagsreglna í kringum móttöku og þjálfun nýrra starfsmanna en í raun eru fyrstu kynni starfsmanna af nýjum vinnustað og samstarfsaðilum gríðarlega mikilvæg. Vitjun getur í þessu tilfelli stutt stjórnendur fyrirtækja og stofnana með fræðslu og uppsetningu verklagsreglna sem sniðin eru að hverjum vinnustað fyrir sig.

  • Starfsmannasamtöl

    Mögulegt er að útvista árlegum starfsmannasamtölum til Vitjunar þar sem m.a. er farið yfir vinnuframlag hvers og eins og möguleika þeirra á þróun í starfi, á faglegan hátt. Samtölin krefjast undirbúnings beggja aðila og sé vel að þeim staðið gefa þau gríðarlega góðar upplýsingar um líðan starfsmanna og almennan starfsanda vinnustaðarins og séu upplýsingarnar nýttar til góðs stuðlar það að minni starfsmannaveltu.

  • Breytingastjórnun / innleiðingarferli

    Breytingar og innleiðingar nýjunga geta verið vandasöm verkefni þar sem fylgja þarf nákvæmum verkferlum, gæta að upplýsingamiðlun og vanda verklag og samskipti eigi breytingin að ganga upp án þess að andstaða myndist meðal starfshópsins. Vitjun býður upp á kerfisbundna nálgun að innleiðingu nýjunga byggða á breytingastjórnun.

Laun og fríðindi

Fátt er mikilvægara, í augum starfsmanna en laun og fríðindi starfsins, auk þess er fátt mikilvægara í augum fyrirtækja og stofnana en hæft starfsfólk. Gott utanumhald og regluleg endurskoðun launa og fríðinda gagnast því öllum viðkomandi aðilum. Dæmi um algeng verkefni mannauðsráðgjafa eru hér að neðan, en verkefni Vitjunar takmarkast þó ekki við neðangreint.

  • Launagreiningar

    Til þess að hægt sé að útrýma óútskýrðum launamun á milli hópa er mikilvægt að framkvæma reglulegar launagreiningar. Að auki geta stjórnendur fengið upplýsingar er varða rekstur fyrirtækja og stofnana út úr greiningunni. Vitjun býður upp á Macro-greiningu sem nær yfir allan hópinn og gefur heildstæða mynd af launamun vinnustaðarins og Micro-greiningu sem nær til smærri hópa innan starfsmannahópsins og gagnast vel til samræminga launa á milli þeirra sem sinna svipuðum störfum. Jafnlaunastaðall ÍST 85:2012 gerir í dag kröfu um reglulegar launagreiningar.

  • Launaröðun

    Það er mikilvægt að vanda til verka þegar launaraða á starfsmönnum, það skal gera skv. viðkomandi kjarasamningi, starfslýsingu og skv. verklagi opinbera markaðarins þegar það á við. Einnig er mikilvægt að endurskoða launaröðun reglulega, þar sem störf taka oft breytingum með tímanum sem getur haft áhrif á launaröðun. Þetta er tímafrekt og því fellur þetta oft á milli hluta hjá fyrirtækjum og stofnunum sem skapar langvarandi óánægju meðal starfsmanna sem hafa það á tilfinningunni að þeir séu ekki metnir að verðleikum. Vitjun tekur að sér launaröðun starfsmanna og endurmat á launaröðun byggt á starfslýsingu hvers og eins.

  • Túlkun kjarasamninga

    Í kjarasamningum má finna allar helstu upplýsingar er varða réttindi og skyldur starfsmanna en auk þess launatöflur og upplýsingar um launaröðun. Þekking á kjarasamningum er því grundvöllur fyrir góðri starfsmannastjórnun en þar sem kjarasamningar eru fremur þungir í lestri og tímafrekir yfirferðar gætir þekkingarleysis á meðal fyrirtækja og stofnana. Vitjun getur aðstoðað þá sem þurfa þar sem vanþekking á kjarasamningsbundnum réttindum getur fljótt orðið kostnaðarsöm.

  • Fríðindi vinnustaða

    Starfsmenn fyrirtækja og stofnana eru mikilvægasta auðlind þess og því er gríðarlega mikilvægt að vinnustaðir hafi aðdráttarafl og takmarki þannig kostnaðarsama starfsmannaveltu. Laun eru einn mikilvægasti þátturinn í þessu en fæstir vinnustaðir eru í stakk búnir til þess að hækka laun langt framyfir kjarasamningsbundna upphæð. Sé starfsmannavelta vandamál eða óánægja með laun á meðal starfsmannahópsins er mikilvægt að leita leiða til þess að laga ástandið, en þar getur Vitjun veitt faglega ráðgjöf. Fríðindi umfram kjarasamningsbundinn rétt hafa gríðarlega jákvæð áhrif á upplifun starfsmanna og hægt er að sérsníða fríðindi vinnustaða að stærð og fjárhag þeirra.

Andleg líðan og áreiti

Töluverð vitundarvakning hefur átt sér stað á síðustu árum varðandi andlega líðan starfsmanna innan starfs umhverfisins og utan. Líði fólki ekki vel, þá gengur illa, svo einfalt er það. Hagsmunum allra er betur gætt sé fylgst með andlegri líðan og áreiti innan vinnustaða. Hér að neðan má sjá dæmi um algeng verkefni mannauðsráðgjafa en listinn er ekki tæmandi.

  • Streitustjórnun

    Upplifun starfsmanna á langvarandi andlegu álagi í vinnu og einkalífi getur leitt til streitu, sem hefur áhrif á starfsmannaveltu og fjölgar veikindadögum eða annarri fjarveru og getur á endanum leitt til kulnunar. Streituvaldar eru gríðarlega einstaklingsbundnir og ná allt frá alvarlegu einelti til óskýrra fyrirmæla yfirmanns. Vitjun getur aðstoðað stjórnendur við að greina streituvalda reglulega og ná tökum á þeim eins fljótt og auðið er með áhrifaríkri streitustjórnun.

  • Kulnun

    Þrátt fyrir að kulnun sé tiltölulega nýtt orð í íslensku er fyrirbærið vel þekkt og rótgróið. Kulnun getur átt sér stað í hvaða starfi sem er og getur orsakast af mörgum einstaklingsbundnum áhrifaþáttum, óháð kyni. Sé hún ómeðhöndluð getur hún leitt til minni afkasta í vinnu, meiri fjarveru og að lokum aukinnar starfsmannaveltu sem getur reynst kostnaðarsöm. Áhrifarík streitustjórnun getur reynst fyrirbyggjandi en Vitjun leggur áherslu á að greina rót vandans og meðhöndla hann í samstarfi við viðkomandi aðila.

  • Einelti

    Á hverjum vinnustað þarf að vera til verklag sem tekur á eineltismálum svo starfsmenn viti hvert þeir eigi að snúa sér verði þeir fyrir einelti, verði vitni að einelti eða gruni að einelti þrífist á meðal samstarfsmanna sinna. Vitjun leggur auk þess áherslu á fyrirbyggjandi aðferðir sem draga úr líkum á einelti. Einelti hefur gríðarlega neikvæð áhrif á upplifun starfsmanna í vinnunni sem og á alla menningu vinnustaðarins, því þarf að uppræta það eins fljótt og kostur er. Þetta er gríðarlega viðkvæmt ferli sem snertir starfsfólk á persónulegan hátt og því þarf að meðhöndla ástandið fagmannlega.

  • Kynferðisleg áreitni

    Í öllum fyrirtækjum og stofnunum ætti að vera til verklag sem tekur á kynferðislegu áreiti svo starfsmenn viti hvert þeir eigi að snúa sér verði þeir fyrir áreiti, verði vitni af áreiti eða gruni að kynferðislegt áreiti þrífist meðal samstarfsmanna sinna. Til viðbótar við verklagið leggur Vitjun áherslu á fyrirbyggjandi aðferðir sem draga úr líkum á áreiti. Leiki grunur á kynferðislegu áreiti innan starfshópsins er mikilvægt að bregðast strax við. Kynferðislegt áreiti er persónulegt viðfangsefni sem meðhöndla þarf með fagmannlegum hætti.

  • Rómantík á vinnustaðnum

    Margir kjósa að hafa til staðar stefnur sem taka á rómantík á vinnustöðum. Ástarsambönd eða hrifning meðan vinnufélaga er algeng og finnst mörgum mikilvægt, í kjölfar metoo byltingarinnar, að hafa til staðar leiðandi stefnur innan vinnustaðarins sem taka á rómantík. Vitjun leggur áherslu á að ekki sé hægt að banna rómantík innan vinnustaða, en hægt er að ganga úr skugga um að hrifningin sé gagnkvæm og hafa þannig allt uppi á borðum. Þetta minnkar líkur á áreiti, hefnigirni vegna þess sem mistekst og á að starfsmönnum sé mismunað vegna eftirlætis meðal þeirra sem eiga í ástarsambandi.

Skrifstofa

Abstrakt mynd af manneskju við tölvu.

Skrifstofustjórnun

Það getur reynst mörgum fyrirtækjum vel að úthýsa skrifstofustarfinu, enda oft ekki grundvöllur fyrir því að fastráða starfsmann á skrifstofuna. Þjónustan er sérsniðin að þörfum fyrirtækja og getur verið afmarkað verkefni eða verið mánaðarleg þjónusta, allt eftir eðli starfsins. Hér að neðan má sjá dæmi um verkefni skrifstofustjóra.

  • Launavinnsla

    Umsjón með mánaðarlegri launavinnslu, samskipti við lífeyrissjóði og stéttarfélög og aðstoð við túlkun kjarasamninga eftir þörfum.

  • Tímastjórnunarkerfi

    Innleiðing og/eða utanumhald tímastjórnunarkerfa sem reynast vinnuveitendum og starfsmönnum oft vel og hafa reynst mikilvæg í utanumhaldi réttinda. Sérstök þekking er á Vinnustund, Tímoni og Bakverði.

  • Reikningar

    Almennt utanumhald reikninga, þ.e. stofnun nýrra reikninga og eftirfylgni með þeim sem og eftirfylgni með þeim reikningum sem fyrirtækinu berast, allt eftir eðli þjónustunnar.

  • Almennt skipulag

    Skrifstofu starfið krefst skipulags, hvort sem það er flokkun pósts, eftirfylgni tölvupósts, skönnun skjala eða flokkun í möppur. Allt eftir þörfum fyrirtækisins.

Gæðakerfi

Abstrakt mynd af tveim tannhjólum.

ÍST-85:2012 / ISO-9001 / ÍST-EN-ISO-14001:2015

Víða er gerð krafa um hin ýmsu gæðakerfi, en tilgangur þeirra er að tryggja hlítingu krafna, laga og reglugerða. Auk lögbundinna gæðakerfa geta fyrirtæki eða stofnanir sem markvisst vinna að ákveðnu markmiði innleitt hin ýmsu stjórnkerfi sem auðveldar þeim þá vinnu til muna.

  • Jafnlaunavottun ÍST 85:2012

    Vitjun býður upp á handleiðslu við innleiðingu jafnlaunavottunar, en tilgangur hennar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla þannig að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með staðlinum geta fyrirtæki og stofnanir komið á fót kerfi sem tryggir málefnanlega meðferð ákvarðana innan vinnustaðarins, svo þær feli ekki sér mismunun. Krafan um jafnlaunakerfi nær til allra fyrirtækja og stofnana þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli.

  • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ISO 9001

    Gerð er krafa um að þeir fagaðilar í mannvirkjagerð, þ.e. hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar, sem taka að sér byggingarleyfisskyld verk þurfi að hafa samþykkt gæðastjórnunarkerfi svo hægt sé að tryggja að verkið uppfylli kröfur, lög og reglugerðir sem lúta að því. Vitjun hefur aðstoðað iðnaðarmenn í uppsetningu, notkun og úttektum á kerfinu með góðum árangri.

  • Umhverfisstjórnun ÍST EN ISO 14001:2015

    Fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem vilja bæta árangur í umhverfismálum eða leitast eftir leiðum til þess að sýna fram á samfélagslega ábyrgð vegna umhverfismála er umhverfisstjórnunarstaðallinn valkvætt stjórnunarkerfi sem auðveldar vinnustöðum að taka markviss skref í átt að bættum árangri. Staðallinn hentar fyrirtækjum og stofnunum af öllum stærðum og gerðum og sé fengin vottun á hann tryggir það stöðuga endurskoðun og umbætur á starfsferlum fyrirtækisins.

Fyrirlestrar

Abstrakt mynd af flettitöflu.

Vitjun býður upp á fjölbreytta fyrirlestra fyrir starfsmannahópinn, hvort sem um ræðir stjórnendur, almenna starfsmenn eða bæði. Hægt er að senda inn beiðni um fræðslu á ákveðnum málefnum eða biðja Vitjun um að gera sér tilboð. Fyrirlestrarnir eru skemmtilegt uppbrot í vinnudaginn, þeir hafa fræðslugildi sem nýtast hverjum og einum sem og vinnustaðnum.

Ráðgjafinn

Abstrakt mynd af manneskju.
Mynd af ráðgjafa, Brynja Rún Benediktsdóttir.


Brynja Rún Benediktsdóttir er ráðgjafi og eigandi Vitjunar ehf.
Hennar reynsla á vinnumarkaði felst meðal annars í mannauðsmálum, skrifstofustörfum, verkefnastjórnun, launavinnslu og innleiðingu hinna ýmissa gæða- og tímastjórnunarkerfa. Áhersla er lögð á vandvirkni og persónulega þjónustu, á þeim tíma sem viðskiptavini hentar.

Sími: 858-7512 Netfang: brynjarun@vitjun.is

Menntun:

  • Bachelor of Arts í sálfræði frá Háskóla Akureyrar.

  • Master of Science í mannauðsstjórnun frá the University of Edinburgh Business School.

  • Kennsluréttindi frá Háskóla Akureyrar.

menu